Af Elínu er það að segja...

Tuesday, April 10, 2007

hvaða vika var það vænan?

Finnar eiga það til að telja í vikum. Ég las um endurbætur á búð og það á allt að vera tilbúið á viku 18. Veit einhver hvenær er vika 18? Ég held að við séum núna á viku 15, hef ekki græna glóru um hvort það sé rétt eða ekki. Man bara að læknirinn á deildinni okkar var í fríi viku 11 og það var fyrir nokkrum vikum.

Þetta er sossum hentugt kerfi nema það er bara smá galli, það veit enginn hvað um er að ræða. Maður þarf að fletta því upp.

Vinnan og vinnan, vinnan er ástæðan fyrir því að ég hef ekkert skrifað hérna. Það var smá vandi í vinnunni hjá mér, eiginlega ekki smá, svolítið stærri en smá. Ég var alvarlega að hugsa um að ganga út fyrir ca 2 vikum. Gerði það ekki en veit ekki alveg hvort að ég eigi að taka hlutina í sátt eður ei. Málin eru svolítið mikið í ólagi þar. Sjáum til.

Annars átti ég ágæta og afslappaða páska. Var í 5 daga fríi sem er sjaldgæfur lúxus. Ég gerði nákvæmlega ekki neitt. Við tókum aðeins til, íbúðin var í rúst, þvoði slatta af þvotti en fyrir utan það ekki neitt.

Fór á Edith Piaf myndina í dag. Var bara nokkuð góð. Alltaf gaman að horfa á franska mynd með finskum og sænskum texta. Mér tókst svona af og til að rugla sjála mig rækilega í ríminu með að gera það sem maður er vanur, lesa bara nokkur orð úr textanum hér og þar. Sama sagan tvisvar á tveim tungum. Held reyndar að ég hafi náð meiru úr finnska textanum en þeim sænska. Ég nota finnsku meira en sænsku heh.

Eitt fyndið með vinnuna, það er hún Irina. Irina er rússnesk kona. Ég hitti hana fyrst í feb 2004. Við vorum saman á finnskunámskeiði. Við byrjuðum á sama tíma og vorum báðar í 10 mánuði. Svo skildust leiðir. Ég hafði ekkert samband við hana. Svo í des 2005 byrja ég á deild 11 á Koukkuniemi, viku síðar labbar Irina inn, hún var þarna til að fá vinnureynslu (tíðkast svoleiðis á íslandi?). Irina var þarna í amk hálft ár áður en hún fór í skóla að læra til sjúkraliða. Ég hélt engu sambandi við hana frekar en fyrri daginn. Jæja svo byrja ég á deild 26 aka rugluðu deildinni. Viku síðar labbar Irina inn. Hún á víst að vera þarna í 3 mánuði sem verklegan hlut af náminu. Ég spurði hana hvert við förum næst, hún var ekki viss.

Þetta fer reyndar bráðum að verða eins og á íslandi hérna. Um daginn hitti ég eina konu úr flamenco hópnum mínum í búð. Daginn eftir hitti ég aðra stúlku úr flamenco hópnum á vinnustaðnum mínum. Ég hafði fengið þá flugu í hausinn að labba niður stigann í stað þess að taka lyftuna. Ég hitti hana í stiganum. Ég vissi ekki einu sinn að hún væri að vinna í heilbrigðisgeiranum. Hún var bara þarna í afleysingum svo ég efast um að ég hitti hana aftur.

Jæja, háttatími :-)