Af Elínu er það að segja...

Sunday, March 16, 2008

Ein ég sit og sauma...

inni í litlu húsi, enginn kemur að sjá mig, nema litli fuglinn. Það er semsagt dugnaðurinn, ég er búin að sitja heima hjá mér í rúma tvo mánuði. Hef enga orku í að vinna þar sem öll orkan mín virðist fara í að búa til barn. Annars af öðrum barnamálum er það að frétta að Heba eignaðist son 8 mars eða á alþjóðlega kvennadaginn.

Eins og ég sagði þá sit ég heima hjá mér þessa dagana og geri mest lítið. Litli haninn minn er voða ánægður þar sem oftast fær hann að sitja hjá mér.

Það er búið að vera mikill snjór hérna í feb og mars. Það leit út fyrir það um daginn að hann væri að fara en svo kom bara enn meira. Finnar eru voða duglegir að moka snjó af gangstéttum, of duglegir að mínu mati. Ég sakna stundum illa sköfuðu gangstéttana úr Reykjavík. Málið er að þeir eiga til að skafa alla gangstéttina og svo slétt og fínt að þetta verður sleypt eftirá. Það er svosem í lagi þegar þeir setja sand á sem þeir eru oftast duglegir með. Það fer aftur á móti í verra þegar snjórinn er allur farinn og það er svo þykkt lag af möl á gangstéttinni að maður rennur í því. Ég bý á hæð og þarf alltaf að labba niður til að komast út úr húsi. Það getur verið svolítið erfitt stundum.

Það verður gert við húsið okkar í sumar og haust. Ætti að vera áhugavert. Lítur út fyrir að við verðum fyrir þónokkrum truflunum. Skv því sem mér skilst á að grafa niður að einum vegg, rífa mest af veggjunum utanfrá og laga þá og svo þurka þá innan frá. Þar sem þurkararnir þurfa 2 metra þá verður voða lítið eftir af íbúðinni til að búa í á meðan. Við þurfum líklegast að flýja eitthvert á meðan það stig gengur yfir. Svo rússínan í pylsuendanum eða þannig, litla krílið á að koma í maí þannig að það verður hérna á meðan ósköpin ganga yfir. Þetta er ekki alveg rólega sumarið sem ég hafði hugsað mér að hafa en það er víst lítið við því að gera.