Af Elínu er það að segja...

Sunday, February 17, 2008

Ég er alltaf svo mikið á leiðinni að skrifa eitthvað hérna að ég bara næ því aldrei að koma þessu öllu niður. Ég ætlaði að segja frá hjúkkuhópuppsögnunum sem aldrei urðu, þeir sömdu við þær rétt í tæka tíð. Það á víst að verða einhver veruleg launahækkun. Þeir dreyfðu þessu á tvö ár ef ég man rétt. Sumir segja að þetta sé fín launahækkun, aðrir að þetta sé ekki svo gott.

Svo ætlaði ég líka að segja frá aumingja Nokiabúum sem lentu í því að fá skolpvatn í bland við drykkjarvatnið sitt svona rétt fyrir jól. Það tók víst voða langan tíma að hreinsa aftur vatnsleiðslurnar. Ég hef reyndar voða lítið heyrt af þessu þannig að ég veit ekki hvort þetta sé í lagi núna. Ég er voða ódugleg við að fylgjast með fréttum.

Ég fór til læknis um daginn til að láta taka af nokkra ljóta fæðingabletti, þetta eru reyndar engir FÆÐINGAblettir heldur klessur sem komu fyrir ca 3 árum. Ég bað lækninn um að taka 4 og hann tók 9. Ég er reyndar voða ánægð með það. Ég bað bara um þessa 4 af því mér var sagt að oftast tækju þeir 1-3. Þessir 4 voru á tveim stöðum þannig ég hélt það myndi reddast. Þessir blettir eru víst sauðmeinlausir en ákaflega ljótir. Ég fékk mikið af þeim á bakið eftir að ég ákvað eitt sumarið að sjá hvort ég gæti ekki orðið brún eins og allir hinir (tókst ekki).

Eitt enn sem ég er alltaf á leiðinni með er að setja upp smá síðu. Ég byrjaði á þessu fyrir nokkrum mánuðum og svo stoppaði það. Annars stendur það núna á því að maður þarf að borga smá fyrir síðuna og ég er ekki búin að því. Þarf að redda því áður en ég get haldið áfram. Það var enn eitt sem ég ætlaði að skrifa hérna, um síðuna og hafa linkinn.

Það hefur verið voða lítill vetur hérna núna. Það byrjaði ekki að snjóa fyrr en um miðjan janúar. Oft hefur frost hérna farið niður í -20°c en núna hefur það kaldasta sem ég sá verið -14°c eina nóttina. Oftast er hitinn um frostmark. Ég er reyndar voða fúl yfir þessu þar sem ég ætlaði að nota frostið til að afþýða ísskápinn. Er búin að plana þetta síðan í sumar.

Rétt fyrir jólin kom kona að mæla hjá okkur raka í veggjum. Þetta var sem betur fer innan eðlilegra marka. Það fynda var að ég var búin að vera voðalega dugleg að baka fyrir jólin og hún minntist á að hér væri góð lykt. Ég bauð henni upp á smáköku. Finnar eru ekki gefnir fyrir svona smáskraf við ókunnugt fólk. Eins og finnum ber hafði þessi kona bara einbeint sér að því sem hún var að gera þegar hún var að mæla veggina (það tók uþb klst). Þegar ég gaf henni smákökuna fór hún að tala við mig og sagði mér frá ferðaáætlunum sínum. Maður þarf semsagt að múta finnum með smákökum til að fá þá til að skrafa.